Kraðak

Verkefni

  • 1
  • 2
  • 3
  • 4
  • 5
  • Hópefli - trúðanámskeið

    Öðruvísi leið í hópefli

    Á námskeiðinu eru stjórnendur og leiðtogar fyrirtækja hvattir til að setja upp rautt nef og finna trúðinn í sjálfum sér. Um er að ræða leiðtoga - og samskiptafærninámskeið sem nefnist Ertu að grínast?  þar sem tækni trúðsins er beitt til að auka leiðtoga - og samskiptafærni einstaklinga. Námskeiðið byggir á áralangri hefð úr leikhúsinu og er skemmtileg en jafnframt afar áhugaverð nálgun á viðfangsefni sem öllum stjórnendum er, eða ætti að vera, hugleikið. Þrátt fyrir titilinn og uppruna tækninnar er alls ekki um léttvægt efni að ræða heldur er það nálgunin sem er óvenjuleg og skemmtileg og jafnframt einstaklega áhrifarík.

    Tinna Lind Gunnarsdóttir útskrifaðist með MPM gráðu í verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík vorið 2013. Lokaverkefni hennar kallaðist "The Project Manager as a Clown" en þar skoðaði hún hvernig hægt væri að nýta tækni trúðsins til að auka leiðtoga - og samskiptafærni verkefnastjóra. Tinna mun á námskeiðinu miðla rannsókn sinni á efninu og leiðbeina þátttakendum í að tengja við sinn starfsvettvang. Tinna hélt kynningu á efninu á ráðstefnu alþjóðlega verkefnastjórnunarfélagsins (IPMA) í Króatíu síðastliðið haust þar sem hún fékk viðurkenningu fyrir framúrskarandi erindi. Hún segir mikinn fjársjóð vera falinn innan veggja leikhússins sem vert er fyrir leiðtoga úr atvinnulífinu að leita í.  Oft er talað um að sterkir leiðtogar hafi sterka nærveru en það er eitthvað sem leikarar eru einmitt mjög meðvitaðir um að þjálfa með sér. Leikarar voru í gamla daga taldir göldróttir enda bjuggu þeir yfir einhverjum óútskýranlegum hæfileikum til að hafa mikil áhrif á fólk. Þeir voru meira að segja dysjaðir í óvígðri jörð þegar þeir dóu.

    Tilvitnanir: 

    "Ég er ákaflega þakklát fyrir þetta tækifæri - það gaf mér mjög mikið að stíga svona út úr raunheimum og takast á við sjálfa mig í nýju samhengi. Takk fyrir!"

    "Námskeiðið hristi upp í sjálfinu og var gott verkfæri í safnið, fær mann til að líta inn á við og jafnframt er áhrifaríkt að beita stýrðri athygli. Takk fyrir mig"

    "Einlægara.  Skemmtilegra. Allt öðruvísi - á góðan hátt.  Skörp skilaboð - kannski þau sömu og hægt er að fá annars staðar - en mátinn til að færa skilaboðin er svo miklu áhrifaríkari."

    "Eiginleikar trúðsins = eiginleikar (góðs) verkefnastjóra. Nýtist verkefnastjóra í mannlegum samskiptum sem eru svo mikilvæg í verkefnum, og til að vera góður / betri leiðtogi í verkefnum. "